Alþjóðlegur fundur á Íslandi (25/06/2017 – 30/06/2017)

Vikuna 26. – 30. júní hittust fulltrúar Erasmus + verkefnisins Strong Young Minds á Íslandi og báru saman bækur sínar um fortíð og framtíð verkefnisins.  Alls tóku 15 manns frá samtökunum 5 þátt í þéttri dagskrá sem skipulögð var af Hugarafli.

Námskrá og námsefni fyrir ungt fólk á aldrinum 14- 18 ára sem unnið er að í tengslum við verkefnið er nú full mótað og haldið verður áfram að prófa það næstu mánuðina.  Prótótýpa var spiluð af borðspilinu sem fulltrúar Ha Moment frá Portúgal hafa hannað og voru allir sammála að sá hluti væri á góðri leið þó enn sé mikil vinna framundan þar eins og í öðrum þáttum verkefnisins.  Þá var jafnframt hafin vinna við handbók fyrir þjálfara og kennara sem byggist á námskránni.  Og að lokum var farið að huga að vefsíðu og myndbandavinnslu sem tengjast verkefninu.

Fyrstu tvo dagana dvaldist hópurinn í Bláfjöllum en hélt síðan til Hveragerðis þar sem vinnu var haldið áfram. Þátttakendur tóku sér líka tíma í að fara í skoðunarferðir um Suðurland til að kynnast landi og menningu betur.  Meðal annars var komið við á Hvolfsvelli þar sem ný og glæsileg sýning í Lava Center var skoðuð.  Þá var farið að Seljalandsfossi, að Geysi og á Þingvelli í blíðskapar veðri.

Mikil vinna er framundan í tengslum við verkefnið hjá öllum sem að því koma.  Þar að auki mun um 15 manna hópur kennara og þjálfara frá þátttökulöndunum fara til Rúmeníu í byrjun nóvember til að læra að nýta sér námsefnið sem verið er að útbúa.  Reiknað er með að 2 til 3 aðilar muni fara frá Íslandi og er leit nú hafin af einstaklingum sem áhuga hafa á að taka þátt í þjálfuninni. Um er að ræða viku þjálfun og þeir sem henni ljúka munu síðar koma að endanlegri prófun á námsefninu í febrúar á næsta ári.

Allt námsefnið, handbókina, þjáfunarmyndbönd og ítarefni verður hægt að nálgast á vefsíðu verkefnisins sem opnar formlega í lok apríl 2018 .  Vefsíðan verður á fimm tungumálum og þar hafa allir aðgang að öllu efninu sér að kostnaðarlausu til kennslu og þjálfunar í skólum eða á styttri námskeiðum.

2018-12-11T10:40:27+00:00